Heimasíða Saktmóðigur.


This page in english



Næstu tónleikar!!!




Hvað gerðist eiginlega?!?!?

Það bar til nærri jólum árið 1990 að 5 ungir menn, er voru þá námsmenn við Menntaskólann að Laugarvatni, ákváðu að nú væri tími til að gera eitthvað til að létta lundu svona í mesta skammdeginu. Fyrst hófu þeir útgáfu blaðs sem bar hið óskiljanlega nafn LOGSÝRA, en eftir tvö tölublöð laust niður í þá snilldarhugmynd, er þeir voru að hlusta á meistaraverkið Two nuns and a packmule sem snillingarnir Rapeman flutti. Málið var að stofna hljómsveit og leggja ritvélina frá sér.

Þetta þótti drengjunum ekki flókið, sérstaklega ekki miðað við það sem Steve Albini og félagar voru að gera og þó var það hrein snilld. Og þó enginn þeirra hefði vott af tónlistarhæfileikum var hafist handa með illskuna eina að vopni. Það fyrsta sem þurfti að ákveða var verkaskipting innan bandsins. Eitthvað var það mál óljóst enda allir jafn hæfir í öll hlutverk. Fljótlega kom þó í ljós að Blár ætlaði sér trommurnar, hann var langjafnhæfastur í samhæfingu ganglima og griparma. Rauður og Svartur voru eitthvað að gæla við að raddanir en þær þurftu þó vart að vera merkilegar og fór ráðning í þessa stöðu þannig fram, að efnt var til öskurkeppni á milli þeirra og var það Svartur sem gat öskrað hærra og í meira magni hverju sinni. Rauður greip þá á næsta gítar því ekki hugnaðist honum starf iðnaðarmanns í bandinu, og honum til fulltingis á gítar var svo Gulur. Því var það svo að hið ljósa man sem var settur bakatil á bassann, geislandi af einkennum bandsins, góðmensku og miskun.

En þar með var ekki allt leyst því lítið var um hljóðfærin og þó trommur og einn gítar fengjust að láni og gamall bassi væri til handagagns, þá gátu aðeins 4/5 gert gagn á æfingum. Þegar bandið spilaði fyrst opinberlega þá voru þeir bara fjórir því þó Gulur hefði nýlega keypt sér gítar og mætt með hann á eina æfingu náði hann sér í ígerð í fingur í kaupbæti. Því var það að þegar hið ódauðlega lag Pervertinn var hljóðritað á þeirra fyrstu tónleikum (þrisvar útgefið) vantaði Gulann. Í einhverju fáti skráði hljómsveitin sig til músíktilrauna vorið 1991 og þó þeir hafi ekki haft með sér feitann hest heim skilaði þáttakan þeim blaðaviðtölum þar sem þessari göfugu villimennsku var fagnað. Í kjölfarið falaðist útgáfurisinn Erðanúmúsík eftir lagi frá félögunum á safnsnælduna Snarl III. Pervertinn var sendur að heimann og þar með var fyrsta verk sveitarinnar útgefið. Um haustið lauk afplánun flestra meðlima bandsins fyrir austan fjall og fyrsta verkefni vetrarins voru tónleika á Neðanhoppi í Moulin Rouges þar sem ansi margir sáu og heilluðustu af þeim félögum og þá var vegurinn greiður fyrir frekari starfsemi bandsins sem átti aðeins að vera vetrargaman. Haustið 1992 var stormað á uppeldisslóðirnar, rótanna leitað og lögum hrúgað inná band sem var fjölfaldað undir titlinum Legill. Sá gripur hefur illu heilli verið ófáanlegur síðan nema gegn svívirðilegum fjárhæðum í undirheimum Hafnarfjarðar. Að því er ég best veit á enginn þáverandi meðlima eintak og skal það haft til marks um þá ásókn sem var og er í gripinn.

Svanasöngur sveitarinnar í upphaflegri mynd sinni var hið goðsagnakenda lag Líkhamar sem kom út á safndiskinum núll&nix vorið 1993. Lagið hafði verið tekið upp nokkru áður í frægri upptökutörn ásamt nokkrum öðrun lögum en þær upptökur liggja annars óhreyfðar. Þeir sem heyrt hafa segja þetta merkilegan kafla í höfundarverki Saktmóðigur.

Álagið og skemmtanirnar samfara þessu leiddu til þess að Rauður ákvað að söðla um, finna sér spúsu og taka upp rólegra og ekki eins sukksamt líferni. Eftir að hafa barist við að húkka far hjá brjáluðum kók-bílstjórum í enn brjálaðra veðri ofan úr Borgarfirði fyrir eina tónleika komst hann að þeirri niðurstöðu að þessu bandi fylgdi meira basl en búbót. Þegar fyrsta plata Saktmóðigur, Fegurðin blómin & guðdómurinn leit ljós þessa heims um áramótin 1993-94 voru þeir því aðeins fjórir. Þar var um að ræða blóðrauða 10 tommu skífu með 5 frumsömdum lögum og meðal annars einum texta Hallgríms Péturssonar. Fékk platan jákvæða umfjöllun gagnrýnenda en heldur þótti hljómurinn loðmullulegur.

Eftir þetta voru drengirnir að velta fyrir sér að vera bara fjórir þar sem vandasamt væri að finna annan rauðan sem hefði þá gjörningahæfileika sem til þurftu. En gamall skólafélagi stundum kenndur við snjó, enn rauðari en sá sem fyrir var og með þó nokkra tónlistarhæfileika var fengin til liðs við bandið eftir nokkuð hark. Eins og annarsstaðar er níðst á þeim nýju og honum var fenginn bassinn í hendur.

Við sem fylgst höfðum með bandinu urðum nú varir við breytingu á bandinu. Það kom í ljós meiri skipulagning og þó gítarar væru áfram brotnir á sviðinu, menn stæðu upp í rjáfri og önnur klikkun þá var það deginum ljósara að það hafði orðið breyting. Breytingarnar héldu áfram, tónlist þeirra varð æ mýkri og aðgengilegri. Fljótlega eftir innkomu Snjómanns gekk bandið í stúdíó og kom ekki út fyrr en 70 mínútum af róli hafði verið fest á band og útkoman varð Ég á mér líf, fyrsti geisladiskur og fyrsta fullvaxna plata Saktmóðigur, óður til lands og þjóðar í 15 lögum.

Eftir þessa þrekraun, árið 1995 ákvað Blár að taka bláu Millet dúnúlpuna sína og reyna að vinna sig út úr þessari vitleysu. Fluttist hann með skvessu sinni til Danmerkur þar sem þau stefndu á að auka andagift sína. Við þetta greip um sig móðursýki í bandinu og var erfitt að umgangast drengina á þessum tíma, því þeir voru sífellt að tafsa um það að þeir yrðu bara að hætta á toppnum, það væri hvergi á lausu slíkur maður sem hefði þá gjörningahæfleika er til þyrfti að fylla skarðið. Var taktur allra í vinahópnum mældur í von um að einhver gæti barið bandið saman. Ekki reyndist svo vera og lögðust þeir í sjálfsvorkun þar til einhverjum datt í hug að setja auglýsingu í DV sem enginn myndi svara nema menn með þá hæfileika er til þurftu og ef enginn sækti um þá væri bandið bara úr sögunni og þeir færu bara allir á sjóinn. En sem betur fer fyrir alla svaraði ungur drengur auglýsingunni og var hann ráðinn með það sama. Við þetta var lokastiginu í þróun bandsins til dagsins í dag lokið. Eins og til að vígja piltinn inn í þennan söfnuð óreiðudýrkenda var honum snarað inn í lítið herbergi þar sem strákur að nafni Viddi geymdi leikföngin sín. Eftir að strákarnir höfðu fengið að leika soldið við Vidda fæddist afkvæmi sem gengdi hinu málfræðilega umdeilda nafni Byggir heimsveldi úr sníkjum, 10" plata sem fór ákaflega litlum hamförum. Upplagið var síðar selt til endurvinnslunnar og fengust þannig nokkrir peningar upp í kostnað enda um ómengað hágæðaplast að ræða.

Nýjasta afurðin heitir svo því látlausa og hversdaglega nafni Plata. Eftir torræða og skáldlega titla fyrri verka var tími kominn á smá plat. Í fyrsta lagi er þetta plata sem heitir Plata, rétt eins og að nefna bæ Bæ eða stað Stað eða jafnvel Staðarstað. Í öðru lagi er þetta ekki plata heldur geisladiskur og þannig er sveitin að plata, plötunafnið Plata er bara plat. Í þriðja lagi er Saktmóðigur bara plat, leikrit í óteljandi þáttum spunnið upp á staðnum.

Með tilkomu nýs trommuleikara var litanöfnunum endanlega lagt og þau sem fram koma hér á heimasíðunni tekin upp, ég er ekki viss um hvernig það fór fram en einhvernveginn finnst mér ólíklegt að menn hafi fengið að velja sér nöfn sjálfir. Nöfnin eru einkennandi fyrir drengina og þeirra útgáfustarfsemi, þeir eru mjög uppteknir af eigin lélega húmor og eru ekkert feimnir að láta hann í ljósi og er alveg sama þó enginn annar skilji hann. Það er hluti af sjálfsmynd sveitarinnar að leggja barnalegann og grófann húmor sinn fyrir alþjóð. Þetta hefur stundum valdið okkur sem erum þeim nákomnir armæðu þar sem við höfum ekki skilið hann en sem betur fer fyrir mig hef ég átt þess kost að láta þá þýða það sem ég ekki skil.

Eitt einkenna bandsins í gegnum tíðina hafa verið algert hamsleysi á tónleikum með tilheyrandi skemmdum á hljóðfærum og slysum á sveitarmeðlimum. Enda hafa aðrar hljómsveitir sem ég hefi séð haft uppi tilburði til að stæla þá tilburði, en enginn getur uppfyllt þetta hamsleysi drengjanna sem þeim var fært m.a. vegna takmarkaðrar kunnáttu á hljóðfæri. Nú hefur þetta soldið róast hjá þeim þar sem þeir eru farnir að þekkja vel inn á hljóðfærin og er hrein pína að hlusta á þá slá um sig með tónfræðirugli eins og "ja... þetta er nú D lækkað..." og fólk sem fylgst hefur með þeim í gegnum tíðina rekur í rogastans. Sama má segja um þá sem hafa hlustað á þá í gegnum tíðina er þeir hlusta á nýju plötu drengjanna sem er algert meistaraverk.

Lalli


Ef þú vilt ganga fram af Saktmóðigur með sóðalegu orðbragði þá er Emil: saktmodigur@saktmodigur.is